Heilagur andi

 bible_spirit_dove.jpg
Heilagur andi er uppspretta sannleikans.
Biblían segir: Jh 14:16-17 Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.

Að fæðast að nýju er að taka við Heilögum anda.
Biblían segir: Jh 3:5-7 Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi. Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju.

Til að öðlast Heilagan anda þurfum við einungis að biðja og síðan að hlýða leiðbeiningum hans.
Biblían segir: Lk 11:13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim Heilagan anda, sem biðja hann. Og P 5:32 Vér erum vottar alls þessa, og Heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða.

Heilagur andi er hluti Guðdómsins.
Biblían segir: P 5:3-4 En Pétur mælti: Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að Heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði.

Heilagur andi er Guð í þeim og á meðal þeirra sem trúa.
Biblían segir: Mt 18:19-20 Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.

Heilagur andi er til staðar á erfiðum tímum.
Biblían segir: Mt 10:19-20 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.

Heilagur andi hjálpar okkur að tilbiðja Guð.
Biblían segir: Jh 4:23-24 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.

Heilagur andi gerir okkur kleift að tala um andlega hluti með miklum mætti.
Biblían segir: P 1:8 En þér munuð öðlast kraft, er Heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.
 
 
Oftast er í Gamla testamentinu talað um heilagan anda sem kraft sem Guð sendi yfir tilteknar persónur þegar hann kallaði þær til þess að vinna ákveðin verk. Dómararnir í Ísrael eru dæmi um það, til dæmis Debóra sem var kona (Dómarabókin 4. - 5. kap.), Gídeon (Dómarabókin 6. - 8. kap.) og Samson (Dómarabókin 13. - 16. kap.). Konungurinn í Ísrael var smurður og merkti smurningin að andi Drottins var honum gefinn. Í samræmi við það nefndist konungurinn Messías eða hinn smurði Drottins.

Eins fengu spámenn heilagan anda. Þegar Ísraelsþjóðin var herleidd til Babýlon á árunum 586-536 f.Kr. hófu spámenn hennar að endurmeta hugmyndir þjóðarinnar um stöðu sína og hlutverk sem þjóðar. Stofnanirnar sem hún hafði áður tengt anda Guðs, konungdæmið og musterið, voru báðar horfnar. Spámennirnir fengu þjóðina til þess að hætta að horfa til fortíðar og horfa þess í stað til framtíðar, þegar sendiboði Guðs kæmi smurður heilögum anda að leysa alla menn undan viðjum ánauðar syndar og dauða. Hugtakið Messías tók þá að merkja frelsara þjóðarinnar sem ætti eftir að koma
 
Nýja testamentið lítur þannig á að þessir spádómar Gamla testamentisins hafi ræst í Jesú. Allt Nýja testamentið er skráð út frá þeirri fullvissu, að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías. Og á grundvelli þess játa kristnir menn um Jesú: "Jesús er Kristur, hinn smurði, Messías, sá sem var fylltur anda Drottins og sá sem veitir anda Drottins, heilögum anda, til fylgjenda sinna."

Áður en Jesús gekk út til pínu sinnar hét hann að gefa lærisveinum sínum heilagan anda til þess að hjálpa þeim, fræða þá og styrkja: "Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans" (Jóhannesarguðspjall 14.16-17). Þessi sannleiksandi á að vitna um Krist í hjörtum lærisveinanna og hvetja þá til vitnisburðar um hann í orðum og verkum.

Í Postulasögunni 2. kapitula er svo greint frá því hvernig þetta fyrirheit rættist. Páll postuli lýsir svo í einu bréfa sinna hvaða ávöxtu heilagur andi geti borið í samfélagi lærisveina Jesú: "Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð, bindindi." (Galatabréfið 5.22)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband